Garðar Thór Cortes

512 512 Söngskólinn í Reykjavík

Garðar Thór Cortes hóf söngnám við Söngskólann í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur árið 1993 og útskrifaðist þaðan fjórum árum síðar. Eftir það stundaði hann nám við Hochschule für Darstellende Kunst und Musik í Vínarborg, sótti einkatíma hjá André Orlowitz í Kaupmannahöfn og stundaði nám við óperudeild Konunglega tónlistarháskólans í Lundúnum. Garðar Thór hefur komið víða fram og haldið einsöngstónleika, sungið í söngleikjum, óratóríum og óperum hér heima, víðsvegar í Evrópu og í Bandaríkjunum. Garðar hefur sungið á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands og farið í tónleikaferðalög með Kiri Te Kanawa, Katherine Jenkins og Elaine Page. Hann hefur komið fram í nokkrum þekktustu tónleikahúsum heims meðal annars Royal Albert Hall og Carnegie Hall. Hann kom fram á lokatónleikum Proms-tónlistarhátíðarinnar í London og söng þar fyrir tugþúsundir. Garðar Thór var tilnefndur til Classical Brit Awards árið 2008 fyrir plötuna Cortes. Meðal óperuhlutverka sem Garðar hefur sungið eru Ferrando í Così fan tutte, Fenton í Falstaff, Alfredo í La Traviata, Rinuccchio í Gianni Schicchi, Ítalskur söngvari í Der Rosenkavalier, Vakula í Cherevichki, Chanfalla í Das Wundertheater, Rodolfo í La Bohème, Hertoginn í Rigoletto og Alberto í L‘occasione fa il ladro. Hann söng hlutverk Don Ramiro í Öskubusku árið 2006 og hlutverk Nemorino í Ástardrykknum árið 2009 hjá Íslensku óperunni. Haustið 2011 tók Garðar þátt í 25 ára afmælissýningu The Phantom of the Opera í Royal Albert Hall sem var send beint út í bíóhúsum um allan heim. Garðar söng hlutverk Phantom í söngleiknum Liebe Stirbt Nie í Hamborg 2015-2016, hann var einnig valinn til að syngja aðalhlutverkið í 30 ára afmælisuppfærslu Phantom of the Opera í París 2016-2017 og árin 2017-2018 hefur Garðar ferðast um gervöll Bandaríkin í hlutverki Phantom í Love Never Dies. Garðar Thór hefur hefur sungið í fjórum uppfærslum Íslensku óperunnar í Hörpu, Tamino í Töfraflautunni, Rodolfo í La Bohème, Don José í Carmen og Horace Adams í Peter Grimes.