Við fengum góða gesti í heimsókn í Söngskólann á dögunum en þar fór fram undirritun samnings á milli ríkisins og sveitarfélaganna um stuðning við tónlistarnám.
Samkomulagi ríkisins og sveitarfélaganna um stuðning við tónlistarnám er ætlað að jafna aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsstigi og festa betur fjármögnun námsins í sessi. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra undirrituðu samkomulagið af hálfu ríkisins og Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Karl Björnsson framkvæmdastjóri fyrir hönd sveitarfélaganna. Undirritunin fór fram í Söngskólanum í Reykjavík í morgun.
„Tónlistarnám er mikilvægt og gott veganesti út í lífið. Jafnt aðgengi að menntun er skilgreint sem meginmarkmið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og að því vinnum við. Ég fagna þessu samkomulagi og þeim einhug sem um það ríkir,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.