Framhaldsprófstónleikar í Snorrabúð, tónleikasal Söngskólans í Reykjavík, fimmtudaginn 19. apríl kl. 16:00
Að loknum tónleikunum verður boðið uppá léttar veitngar í anda sumardagsins fyrsta
Aðgangur ókeypis og allir velkomnir
Þórhildur Steinunn Kristinsdóttir mezzo-sópran
Birgir Stefánsson tenór
Hólmfríður Sigurðardóttir píanó
Þórhildur er nemendi Hörpu Harðardóttur en Birgir er nemandi Bergþórs Pálssonar
Þórhildur Steinunn Kristinsdóttir hóf tónlistarnám 5 ára gömul í barnakór Tónlistarskóla Ísafjarðar. Ári seinna hóf hún píanónám í Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar á Ísafirði. Haustið 2012 byrjaði Þórhildur í Gradualekór Langholtskirkju undir stjórn Jóns Stefánssonar og hóf þá einnig söngnám hjá Hörpu Harðardóttur í söngdeild Langholtskirkju. Eftir grunnpróf í söng byrjaði Þórhildur í fullu námi við Söngskólann í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í tónleikum með Óperukórnum undir stjórn Garðars Cortes og einnig með Kór Langholtskirkju. Þórhildur er meðlimur í dömukórnum Graduale Nobili. Þórhildur hefur tvisvar tekið þátt í Óperuakademíu unga fólksins í Hörpu og sótt fjölda masterclassa í Söngskólanum í Reykjavík. Í vor tók Þórhildur þátt í íslensku söngkeppninni Vox Domini þar sem hún hlaut 3. sæti í framhaldsflokki. Síðasta ár var Þórhildur annar drengur í uppfærslu nemendaóperunnar á Töfraflautunni eftir W.A. Mozart og í ár var hún prins Orlofsky í Leðurblökunni eftir Johann Sträuss.
Birgir Stefánsson tenór (1995) lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni vorið 2015. Á menntaskólaárunum söng hann með Kór Menntaskólans og tók jafnframt þátt í uppsetningu á tveimur söngleikjum, þar sem hann fór annars vegar með hlutverk Perchiks í Fiðlaranum á þakinu og hins vegar með hlutverk Baldurs Krelborns í Litlu hryllingsbúðinni.
Að loknu stúdentsprófi hóf Birgir nám við Söngskólann í Reykjavík undir leiðsögn Bergþórs Pálssonar og Hólmfríðar Sigurðardóttir, en áður hafði hann lokið einni önn við Söngskólann og þá undir leiðsögn Garðars Thors Cortes og Krystynu Cortes.
Eftir að Birgir flutti til Reykjavíkur hefur hann sungið með Óperukórnum í Reykjavík, Kammerkór Digraneskirkju og Kór Langholtskirkju. Birgir söng á Ungum einsöngvurum í Langholtskirkju árið 2017 sem haldnir hafa verið af Listafélagi Langholtskirkju. Birgir tók þátt í uppfærslu Óperudeildar Söngskólans í Reykjavík á Töfraheimi Prakkarans eftir Ravel veturinn 2015-2016. Veturinn 2016-1017 fór hann með hlutverk Papagenos í Töfraflautunni eftir W. A. Mozart. Nú í vetur fór hann með hlutverk Gabriel von Eisenstein í Leðurblökunni eftir Strauss. Einnig fer Birgir með hlutverk Nornarinnar í konsertuppfærslu af Skilaboðaskjóðunni með Ungdeild Söngskólans í Reykjavík núna í apríl.