Ein dáðasta sópransöngkona heims, Karita Mattila, verður með masterclass í Snorrabúð, sal Söngskólans í Reykjavík, föstudaginn 16. mars kl. 14:30 – 17:30.
Það er fullbókað á masterclassinn.
Þeir sem hafa áhuga á að hlusta á masterclassinn eru beðnir um að láta vita, í síma 552-7366, í síðasta lagi miðvikudaginn 14. mars.
Daginn fyrir Masterclassinn syngur Karita Mattila tónleika með Sinfoníuhljómsveit Íslands.
Nánar: https://www.sinfonia.is/
Þetta er í fyrsta sinn sem Karita Mattila syngur á Íslandi. Hún hefur sungið við öll helstu óperuhús heims, m.a. undir stjórn James Levine, Colin Davis, Bernard Haitink, Antonio Pappano og Simon Rattle. Hún hefur sungið Elektru á Salzburgarhátíðinni, Salome við Parísaróperuna og Metropolitan-óperuna í New York, í Don Carlos á Edinborgarhátíðinni og í Don Giovanni í Chicago. Nýverið söng hún í Jenufa í Metropolitan-óperunni og við Bæversku þjóðaróperuna. Hún hélt einnig einsöngstónleika í Wigmore Hall og við Vínaróperuna við góðar undirtektir og söng Sibelius ásamt Fílharmóníuhljómsveit Franska útvarpsins. Þá söng hún í Valkyrjunni eftir Wagner ásamt Jonasi Kaufmann og Lundúnasinfóníunni.
Hún lauk námi frá Sibeliusar-akademíunni árið 1983 og hélt áfram námi hjá Veru Rosza í Lundúnum. Hún hreppti fyrstu verðlaun í fyrstu Cardiff-söngkeppninni árið 1983 og debúteraði í Covent Garden tveimur árum seinna. Hún hefur hlotið tvenn Grammy-verðlaun, fyrir hljóðritun sína á Meistarasöngvurunum í Nürnberg árið 1998 og Jenufa árið 2004. Hún var tilnefnd til Laurence Olivier-verðlaunanna árið 2001 fyrir framúrskarandi afrek á óperusviðinu. Tímaritið Musical America útnefndi hana tónlistarmann ársins 2005 og sagði um hana að hún væri „rafmagnaðasta söng- og leikkona vorra daga, flytjandi sem blæs nýju lífi í gamalt listform og fær áheyrendur til að hrópa af æsingi“. BBC Music Magazine útnefndi Mattila eina af 20 bestu sópransöngkonum 20. aldar árið 2007.