Sagan

Hlutverk Söngskólans í Reykjavík er…

  • ..að veita kennslu í söng og staðgóða almenna tónlistarmenntun
  • ..að sérmennta og útskrifa einsöngvara og söngkennara

Margir af nemendum Söngskólans hafa skapað sér stóran sess í söngvaraheiminum s.s. Kristinn Sigmundsson, Garðar Thór Cortes og Þóra Einarsdóttir eru dæmi um það.  Einnig hafa margir af okkar þekktustu söngvurum í rytmísku deildinni stundað nám við Söngskólann og má þar nefna Emiliönu Torrini, Eivöru Pálsdóttur, Kristjana Stefánsdóttir, Sigríði Thorlacius og Svavar Knútur.

Námið við Söngskólann í Reykjavík skiptist í nokkrar deildir:

  • Unglingadeild (8 – 15 ára)
  • Almenn deild
  • Háskóladeild

Einnig býður skólinn upp á ýmis námskeið:

  • 7 vikna söngnámskeið fyrir söngáhugafólk á öllum aldri
  • Námskeið fyrir kóra
  • Ýmis meistaranámskeið, sem eru opin áhugafólki til áheyrnar

Nemendaópera Söngskólans setur árlega upp sýningar og blómlegt tónleikahald er innan skólans.

Garðar Cortes stofnaði Söngskólann í Reykjavík haustið 1973 og hefur gegnt starfi skólastjóra þar æ síðan. Hann hefur nú óskað eftir lausn frá því starfi fyrir aldurs sakir. Stjórn Söngskólans hefur ráðið Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur deildarstjóra söngdeildar sem skólastjóra og Garðar Thor Cortes söngkennara sem aðstoðarskólastjóra og skulu þau starfa hlið við hlið og skipta með sér verkum eftir samkomulagi í samráði við stjórn Söngskólans. Skólastjóraskiptin áttu sér stað laugardaginn 20. ágúst 2022.

Garðar Cortes verður áfram formaður stjórnar Söngskólans.

Söngskólinn í Reykjavík er sjálfseignarstofnun. Frá árinu 1973 hafa á fjórða þúsund nemendur stundað nám við skólann; 365 hafa lokið framhaldsprófi (lokaprófi úr almennri deild). Einnig hefur skólinn brautskráð samtals 214 nemendur með háskólagráður í einsöng og/eða söngkennslu. Margir fremstu söngvarar Íslands, bæði óperusöngvarar og aðrir auk fjölmargra kórsöngvara, sumir heimsfrægir, eru fyrrverandi nemendur Söngskólans.

Garðar Cortes stofnaði Söngskólann í Reykjavík haustið 1973 og rak hann sem einkastofnun til ársins 1978 er kennarar, nemendur og velunnarar skólans, undir forystu Garðars, stofnuðu Styrktarfélag Söngskólans í Reykjavík.  Skólinn starfaði í eigin húsnæði að Hverfisgötu 45 frá 1978.  Haustið 2002 fluttist öll starfsemi Söngskólans í Reykjavík í glæsilegt og rúmgott húsnæði að Snorrabraut 54.  Haustið 2018 fluttist skólinn í ný húsakynni við Laufásvegi 49 – 51í Reykjavík, húsið heitir Sturluhallir sem margir eldri íbúar Reykavíkur þekkja og kannast við.

Núverandi húsnæði Söngskólans

Stjórn Styrktarfélags Söngskólans og skólanefnd er kosin á aðalfundi Styrktar-félagsins haust hvert.

Hún er nú þannig skipuð.

Aðalstjórn:
Garðar Cortes
Ólöf Kolbrún Harðardóttir
Þorvaldur Gylfason

Varastjórn:
Ásrún Davíðsdóttir
Kolbrún Sæmundsdóttir
Viðar Gunnarsson

Skólinn hefur frá upphafi verið í prófasambandi við Konunglegu tónlistarskólana í Bretlandi “The Associated Board of the Royal Schools of Music”.  Öll lokapróf frá skólanum hafa verið tekin í samvinnu við ABRSM, prófdómarar frá þeim dæmt prófin og nemendur hlotið prófskírteini sem njóta alþjóðlegrar viðurkenningar, auk þess sem nemendum sem skara fram úr er boðið að sækja um alþjóðlega styrki ABRSM, til náms við Tónlistarháskóla sambandsins í Bretlandi.