Námsleiðir

Söngleikjadeild

Í tilefni af því að Söngskólinn í Reykjavík lauk sínu 50. starfsári 2023, bætti skólinn inn nýrri námsgrein við söng- og tónlistarnám skólans. Söngleikjadeild er hluti af því vali sem nemendur eiga kost á, en eftirspurn eftir slíku námi hefur aukist undanfarin ár og skólinn sinnir nú því kalli.

Í hópi nemenda sem lokið hafa prófum frá Söngskólanum í Reykjavík eru fulltrúar sem hafa átt glæsilegan feril og verið eftirsóttir hérlendis og erlendis í flutningi á ýmsum leiksviðum söngleikjanna. Þar er með þeim fremstu  Valgerður Guðnadóttir sem hefur tekið að sér að móta og leiða deildina og miðla þar af reynslu sinni. 

Námslýsing 

Söngleikjadeild er ný deild við Söngskólann í Reykjavík þar sem lögð er áhersla á söngleikjaformið. Söngleikir spanna breitt svið með ólíkum straumum og stefnum og sameina ýmis listform svo sem söng, dans og leik.  

Áhersla Söngleikjadeildar er sú að nemendur öðlist góða reynslu í að tjá sig í söng og leik á sviði og hljóti jafnframt undirbúning fyrir inntökupróf t.d. í leiklistar- og/eða söngleikjanám á háskólastigi. 

Nemendur læra raddbeitingu, fá leiðsögn og þjálfun í textameðferð og leikrænni tjáningu og vinna með píanóleikara. Að auki læra nemendur tónfræði og tónheyrn og hafa val um að læra tónlistarsögu. Hægt er að taka Grunn- og Miðpróf við Söngleikjadeild og eftir það er annað hvort hægt að ljúka svokölluðu Diplómaprófi úr Söngleikjadeild eða ljúka hefðbundnu framhaldsnámi í klassískum söng. 

Lögð er áhersla á frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð og hvatt er til samvinnu t.d. í hópverkefnum  og sviðsvinnu. Góð mæting er gríðarlega mikilvæg. 

Námið skiptist þannig að nemendur fá einkatíma í söng tvisvar í viku, hálftíma í senn með söngkennara og einu sinni í viku í hálftíma með píanóleikara. Hóptímar eru tvisvar í viku tveir tímar í senn. Mikilvægt er að allir nemendur geti mætt í báða þessa tíma þar sem unnið er með öllum hópnum í samsöng, leiklist og hreyfingum. Áhersla er lögð á að nemendur komi undirbúnir í hóptímana og geti sungið blaðlaust.

Nemendur undirbúa Grunn- / Miðpróf eða Diplóma með sínum söngkennara samhliða öðrum verkefnum og metur kennari hvenær nemandi er tilbúinn til að taka slík próf. Í Grunn- og Miðnámi er miðað við aðalnámskrá í klassísku söngnámi en verkefnaval er hins vegar að stórum hluta söngleikjatónlist. Verkefnaval diplómanáms Söngleikjadeildar inniheldur einungis söngleikjatónlist frá hinum ýmsu stílum söngleikjatónlistar. Kjarnafög Diplómanáms fylgja aðalnámskrá.   

Haustsýning 

Á haustönn er tónleikasýning, sviðsett að hluta, sem allir nemendur Söngleikjadeildar taka þátt í. 

Jólatónleikar 

Í desember eru jólatónleikar Söngleikjadeildar þar sem verkefni eru fjölbreytt og tengd jólum.

Vorsýning 

Eftir áramótin hefst vinna við vorsýningu deildarinnar. Að auki við hefðbundnum hóptímum er gert ráð fyrir viðbótaræfingum þegar nær dregur sýningu.

Prófað er í hlutverk úr öllum hópnum en um leið lögð áhersla á að allir nemendur deildarinnar séu þátttakendur. Verkefnval miðast við hópinn hverju sinni og verður það kynnt í upphafi vorannar. 

Skólagjöld: Söngleikjadeild 528.000 kr.

NÁMIÐ

EINKATÍMAR Á VIKU
• Söngtími 2×30 mín
• Söngur með meðleikara 1×30 mín
KJARNAGREINAR Á VIKU. HÓPTÍMAR:
• Tónfræði 60 mín
• Tónheyrn og nótnalestur 60 mín
• Tónlistarsaga 60 mín
• Hóptími Söngleikjadeildar 120 mín
• Leiklist og tjáning (hluti af hóptíma)
Scroll to Top

Hér á síðunni er að finna flest það sem þú þarft að vita um Söngskólann, en ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að hafa samband við okkur. Skrifstofan er opin:

Mán. 11:00-17:00

Þri. 09:00-15:00

Mið. 12:00-17:00

Fim. 11:00-17:00

Fös. 10:00-15:00

HAFA SAMBAND

SAMFÉLAGSMIÐLAR

STAÐSETNING