Kveðjutónleikar Péturs

784 295 Söngskólinn í Reykjavík

Pétur Úlfarsson tenór og fiðluleikari
Kristinn Örn Kristinsson, píanó
Hrönn Þráinsdóttir, píanó

Tónleikarnir fara fram í Salnum Kópavogi og eru kveðjutónleikar Péturs í söng frá Söngskólanum í Reykjavík og í fiðluleik frá Menntaskóla í tónlist.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.

Pétur er söngnemandi Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og fiðlunemandi Ara Þórs Vilhjálmssonar og Auðar Hafsteinsdóttur

Gestir sem fram koma á tónleikunum:
Birgir Stefánsson, tenór
Halldóra Ósk Helgadóttir, sópran
Einar Dagur Jónsson, tenór
Hjalti Nordal, píanó
Laufey Lin Jónsdóttir, söngur
Birkir Örn Hafsteinsson, klarínett
Herdís Ágústa Kristjánsdóttir Linnet, píanó

Um Pétur:
Pétur Úlfarsson er fæddur 1999 og hóf tónlistarnám sitt þriggja ára gamall við Suzukitónlistarskólann í Reykjavík þar sem hann lærði á fiðlu hjá Mary Campbell. Leið hans lá síðan í Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hann hélt fiðlunáminu áfram hjá Ara Vilhjálmssyn. Hann var síðan nemandi Guðnýjar Guðmundsdóttur frá 2012 til ársins 2017. Í dag er hann nemandi Ara Þórs Vilhjálmssonar og Auðar Hafsteinsdóttur. Pétur stundaði einnig píanónám í 4 ár m.a. hjá Jónasi Sen og Svönu Víkingsdóttur við Tónlistarskólann í Reykjavík.

Tíu ára gamall, vann hann til Nótuverðlauna fyrir Suzukitónlistarskólann með einleik á fiðlu. Pétur hefur spilað með Ungfóníu og Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands og var konsertmeistari Ungsveitarinnar árið 2015. Hann hefur sótt fjölda fiðlunámskeiða, m.a. í Frakklandi, Bretlandi, Póllandi og í Bandaríkjunum. Þá hefur hann spilað í masterklass fyrir og/eða sótt tíma hjá Midori, Christian Tetzlaff, Mimi Zweig, Sigurbirni Bernhardssyni, Simin Ganatra og fleirum. Pétur lauk framhaldsprófi í fiðluleik í nóvember 2016.

Pétur hóf að syngja með Drengjakór Reykjavíkur sjö ára gamall, og söng með kórnum í fjögur ár. Hann hóf söngnám sitt við Söngskólann í Reykjavík haustið 2009, fyrst hjá Garðari Thor Cortes en hefur verið nemandi Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur frá því 2012. Pétur hefur sungið í þremur uppfærslum hjá Íslensku Óperunni í Hörpu, en hann var valinn til að syngja hlutverk fyrsta anda í Töfraflautunni árið 2011. En það mun vera í fyrsta skipti sem drengur syngur hlutverkið hjá ÍÓ. Hann söng síðan með barnakórnum í uppsetningu ÍÓ á La Bohéme árið 2012 og Carmen árið 2013.
Pétur var valinn til að syngja einsöng, Chichester Psalms, með Sinfóníuhljómsveit Íslands í janúar 2013 – sem hann hlaut einróma lof fyrir. Fyrir jólin það sama ár var hann sérstakur gestur á Jólagestum Björgvins þar sem hann söng dúett með Gissuri Páli.

Pétur hefur sótt söngnámskeið erlendis og unnið til verðlauna í alþjóðlegum keppnum bæði sem söngvari sem og fiðluleikari. Í mars á þessu ári kom hann fram í Carnegie Hall í New York í kjölfar sigurs í alþjóðlegri tónlistarkeppni. Þá söng hann einnig hlutverk Eisenstein í uppfærslu nemendaóperu Söngskólans á Leðurblökunni í mars á þessu ári. Pétur lauk framhaldsprófi í söng í maí 2017 og hlaut þá bæði hæstu einkunn í framhaldsprófi sem og hæstu einkunn skólans.
Í haust liggur leið Péturs til Bandaríkjanna í háskólanám í tónlist.