Marta Kristín Friðriksdóttir

2560 1707 Söngskólinn í Reykjavík

Árið 2017 hefur verið mjög viðburðarríkt hjá söngkonunni Mörtu Kristínu Friðriksdóttur, nemenda við Söngskólann í Reykjavík. Snemma árs vann Marta söngkeppnina Vox Domini, á vegum FÍS (Félag Íslenskra söngkennara) og fékk nafnbótina Rödd ársins 2017!

Samhliða því að syngja hlutverk Paminu í Töfraflautunni, eitt aðalhlutverk óperunnar, söng Marta sig inn í virtan tónlistarháskóla í Vín: Universität für musik und darstellende kunst Wien. Hún heillaði dómnefndina þar við skólann eins og henni einni er lagið.

Marta hóf nám við Söngskólann í Reykjavík árið 2012 og hefur síðan þá lært hjá Signýju Sæmundsdóttur og Þóru Fríðu Sæmundsdóttur. Hún kom hingað með gott veganesti frá Margréti Pálma, Hönnu Björk Guðjónsdóttur og Ingu Backman. Í lok síðasta skólaárs lauk Marta 8. stigs söngprófi með hæstu einkunn eða 9,6. Á bak við velgengni sem þessa liggur mikil vinna, en Marta hefur verið dugleg að sækja masterclassa hérlendis sem og erlendis.

Tónlistarháskólinn í Vín hefst 2. Október 2017. Þar við skólann eru nú þegar nokkrir aðrir nemendur frá Söngskólanum í Reykjavík: Kristín Sveinsdóttir, Jóna G. Kolbrúnardóttir, Gyrðir Viktorsson, Davíð Ólafsson og Unnsteinn Árnason. Við vonum að þau taki vel á móti líflegu og skemmtilegu Mörtunni okkar og hjálpi henni að fóta sig á nýjum stað.