Úrslit svæðistónleika Nótunnar 2017

2048 1152 Söngskólinn í Reykjavík

Söngskólinn í Reykjavík sendi frá sér tvö atriði á svæðistónleika Nótunnar 2017, sem fram fór um helgina í Grafarvogskirkju. Á svæðistónleikunum voru veittar viðurkenningar og nótuverðlaun til þeirra atriða sem valin voru til að taka þátt í Lokahátíð Nótunnar.

Bæði atriðin sem tóku þátt fyrir hönd Söngskólans í Reykjavík komust áfram!

 

Einar Dagur Jónsson tók þátt í flokki einleiks-/einsöngsatriða. Hann söng aríu Taminos úr Töfraflautunni eftir W.A. Mozart, Dies Bildnis ist bezaubernd schön. Antonia Hevesi lék undir með Einari Degi sem er nemandi Egils Árna Pálssonar söngkennara. Fyrr á árinu tók Einar Dagur þátt í söngkeppni Vox Domini og hlaut þar verðlaunasæti á framhaldsstigi.

 

Atriðið á okkar vegum í samleiks-/samsöngsflokki var í höndum Nemendaóperunnar. Þau sungu Quintett úr Töfraflautunni eftir W.A. Mozart, Hm hm hm, undir handleiðslu Sibylle Köll og Hrannar Þráinsdóttur. Quintettinn skipuðu: Salný Vala Óskarsdóttir, Jara Hilmarsdóttir, Hanna Ágústa Olgeirsdóttir, Birgir Stefánsson og Einar Dagur Jónsson. Salný Vala og Jara eru nemendur Hörpu Harðardóttur, Hanna Ágústa er nemandi Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur, Birgir er nemandi Bergþórs Pálssonar og Einar Dagur er, eins og fyrr hefur komið fram, nemandi Egils Árna Pálssonar.

Við viljum óska þessum glæsilega hópi söngvara, söngkennara, píanóleikara og leikstjóra innilega til hamingju með árangurinn og við hlökkum til að sjá þau koma fram á Lokahátíð Nótunnar í Eldborgarsal Hörpu, sunnudaginn 2. Apríl 2017.