Söngnám fyrir alla
UM SKÓLANN
Hlutverk skólans er að veita kennslu í söng og staðgóða almenna tónlistarmenntun, sérmennta og útskrifa einsöngvara.
Í Söngskólanum í Reykjavík er aðalnámsgrein söngur/raddbeiting. Því námi fylgja ýmis kjarnafög svo sem tónfræði, hljómfræði, tónheyrn, tónlistarsaga og píanó. Kennarar skólans er hópur söngvara, píanóleikara og annarra tónlistarmanna með langt nám og jafnvel mikla reynslu að baki og hafa þeir af miklu að miðla.
Allir nemendur fá reglulega einkatíma í söng og einkatíma með píanóleikara til vinnu á verkefnum sínum frá og með Ungdeild, í gegnum Grunndeild, Miðdeild, sem greinist í almenna söngdeild, leikrita- og söngleikjaáfanga sem eru áfram hluti af náminu í Framhalds- og Háskóladeild, en þær greinast að auki í Ljóða-/aríudeild og Óperudeild. Í þessum deildum vinna nemendur í Masterklössum að öllum tónlistarstílum. Þegar þessu námi er öllu lokið þá hefur nemandi unnið að lágmarki 150 verkefni og reglulega komið fram á tónleikum innan skólans, að auki því að koma fram á sviðsettum sýningum skólans, sem eru 1 til 2 á ári innan hverrar deildar.
Við erum svo heppin að hafa í okkar röðum kennara sem hafa sérhæft sig í leiklist og dansstjórnun og allar samsöngsdeildir fá leiðsögn í þeim þáttum.
Aldur nemenda við skólann er frá 7– 60 ára, enda er gefinn kostur á ýmsum deildum.


Margir af nemendum Söngskólans hafa skapað sér stóran sess í söngvaraheiminum eins og t.d. Kristinn Sigmundsson, Garðar Thór Cortes, Þóra Einarsdóttir, Dísella Lárusdóttir, Gissur Páll Gissurarson, Valgerður G. Guðnadóttir, Bjarni Thor Kristinsson, Jóhann Smári Sævarsson, Hanna Dóra Sturludóttir, Viðar Gunnarsson, Egill Árni Pálsson, Auður Gunnarsdóttir og Oddur Arnþór Jónsson. Einnig hafa margir af okkar þekktustu söngvurum í rytmísku deildinni stundað nám við Söngskólann og má þar nefna Emiliönu Torrini, Eivöru Pálsdóttur, Kristjönu Stefánsdóttur, Sigríði Thorlacius og Svavar Knút.
Námið við skólann skiptist í nokkrar deildir:
- Ungdeild (6 – 15 ára)
- Almenn deild
- Háskóladeild
- Söngleikjadeild
Einnig býður skólinn upp á ýmis námskeið:
- 7 vikna söngnámskeið fyrir söngáhugafólk á öllum aldri
- Ýmis meistaranámskeið, sem eru opin áhugafólki til áheyrnar
Nemendaópera Söngskólans setur árlega upp sýningar og innan skólans er blómlegt tónleikahald er innan skólans. Nemendur syngja reglulega á nemendatónleikum fyrir áhorfendur með undirspil en skólinn leggur mikið úr að nemendur fái tækifæri til að æfa sig að koma fram á meðan námi stendur.
STJÓRN SKÓLANS


Viðar Gunnarsson


Ólöf Kolbrún Harðardóttir


Þorvaldur Gylfason


Soffía H. Bjarnleifsdóttir


Auður Gunnarsdóttir


Garðar Thór Cortes
SAGA SÖNGSKÓLANS Í REYKJAVÍK
Frá stofnun Söngskólans hafa á fjórða þúsund nemendur stundað nám í skólanum og hafa 365 nemendur lokið framhaldsprófi (lokaprófi úr almennri deild). Einnig hefur skólinn brautskráð samtals 214 nemendur með háskólagráður í einsöng eða söngkennslu.
Ólöf Kolbrún Harðardóttir tók við stöðu skólastjóra af Garðari Cortes, en í dag er Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir skólastjóri.
Söngskólinn hefur til þessa dags búið í fjórum fallegum húsum sem Einar Erlendsson húsameistari teiknaði öll, fyrstu árin í litlu húsi við Laufásveginn, síðan að Hverfisgötu 45 frá 1978 til 2002, þar næst að Snorrabraut 54 frá 2002 til 2018 og síðan þá að Laufásvegi 49-51 í húsum sem bræðurnir Sturla og Friðrik Jónssynir reistu og heita Sturluhallir.


Samstarf við Konunglegu tónlistarskólana í Bretlandi
Skólinn var frá upphafi fram að COVID- faraldrinum í prófasambandi við Konunglegu tónlistarskólana í Bretlandi “The Associated Board of the Royal Schools of Music”. Öll lokapróf frá skólanum voru tekin í samvinnu við ABRSM, prófdómarar frá þeim dæmdu prófin og nemendur hlutu prófskírteini sem njóta alþjóðlegrar viðurkenningar. Í dag eru próf tekin í samræmi við íslensku aðalnámskrá tónlistarskólanna.
Ýmsir þekktir söngvarar hafa numið við skólann
Margir fremstu söngvarar Íslands, bæði óperusöngvarar og aðrir auk fjölmargra kórsöngvara, sumir heimsfrægir, eru fyrrverandi nemendur Söngskólans og hafa látið um sig muna í söngheiminum, þar á meðal söngvararnir Viðar Gunnarsson, Kristinn Sigmundsson, Kolbeinn Ketilsson, Andrea Gylfadóttir, Auður Gunnarsdóttir, Bjarni Thor Kristinsson, Kristjana Stefánsdóttir, Hanna Dóra Sturludóttir, Ólafur Kjartan Sigurðarson, Daníel Ágúst Haraldsson, Þóra Einarsdóttir, Hrólfur Sæmundsson, Sigrún Pálmadóttir, Garðar Thór Cortes, Egill Árni Pálsson, Dísella Lárusdóttir, Gissur Páll Gissurarson, Svavar Knútur Kristinsson, Valgerður Guðrún Guðnadóttir, Emiliana Torrini, Oddur Arnþór Jónsson, Hildigunnur Einarsdóttir, Kristín Sveinsdóttir, Unnsteinn Árnason og Jóna G. Kolbrúnardóttir. Í húsi Söngskólans eru margar vistarverur.