Ari Hálfdán nam píanóleik hjá Bjargeyju Þ. Ingólfsdóttur sem barn og unglingur. Upp frá því fór hann að fikta sjálfur við önnur hljóðfæri í auknum mæli, einkum gítar, en á meðan frekara tónlistarnám var ekki í formlegum farvegi hélt áhuginn áfram að vaxa og um leið umbreytast: Haustið 2015 tók hann upp þráðinn með tónsmíðanámi í Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Atla Ingólfssonar og Hróðmars I. Sigurbjörnssonar og lauk þaðan BA gráðu 2018. Auk tónheyrnar- og hljómfræðikennslu í Söngskóla Reykjavíkur og Tónlistarskóla Garðabæjar hefur tónskáldaferill hans mjakast farsællega í gang, verk hans hafa hljómað á hátíðum eins og Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði og Myrkum músíkdögum og árið 2021 kom út verk eftir hann á plötu Hins íslenska gítartríós, Vistas. Þá frumfluttu gítarleikararnir Svanur Vilbergsson og Óskar Magnússon verk eftir hann í tónleikaröðinni 15:15 í Breiðholtskirkju í nóvember 2021. Ari tók fyrst að sér kennslu í Söngskólanum vorið 2020 en hann hefur kennt í meira en áratug í næstu höll við hliðina, á leikskólanum Laufásborg.