Aðstoðarskólastjóri og söngkennari

Garðar Thór Cortes

Garðar Thór Cortes hóf söngnám við Söngskólann í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur árið 1993 og útskrifaðist þaðan fjórum árum síðar. Eftir það stundaði hann nám við Hochschule für Darstellende Kunst und Musik í Vínarborg, sótti einkatíma hjá André Orlowitz í Kaupmannahöfn og stundaði nám við óperudeild Konunglega tónlistarháskólans í Lundúnum. Garðar Thór hefur komið víða fram og haldið einsöngstónleika, sungið í söngleikjum, óratóríum og óperum hér heima, víðsvegar í Evrópu og í Bandaríkjunum. Garðar hefur sungið á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands og farið í tónleikaferðalög með Kiri Te Kanawa, Katherine Jenkins og Elaine Page. Hann hefur komið fram í nokkrum þekktustu tónleikahúsum heims meðal annars Royal Albert Hall og Carnegie Hall. Hann kom fram á lokatónleikum Proms-tónlistarhátíðarinnar í London og söng þar fyrir tugþúsundir. Garðar Thór var tilnefndur til Classical Brit Awards árið 2008 fyrir plötuna Cortes. Meðal óperuhlutverka sem Garðar hefur sungið eru Ferrando í Così fan tutte, Fenton í Falstaff, Alfredo í La Traviata, Rinuccchio í Gianni Schicchi, Ítalskur söngvari í Der Rosenkavalier, Vakula í Cherevichki, Chanfalla í Das Wundertheater, Rodolfo í La Bohème, Hertoginn í Rigoletto og Alberto í L‘occasione fa il ladro. Hann söng hlutverk Don Ramiro í Öskubusku árið 2006 og hlutverk Nemorino í Ástardrykknum árið 2009 hjá Íslensku óperunni. Haustið 2011 tók Garðar þátt í 25 ára afmælissýningu The Phantom of the Opera í Royal Albert Hall sem var send beint út í bíóhúsum um allan heim. Garðar söng hlutverk Phantom í söngleiknum Liebe Stirbt Nie í Hamborg 2015-2016, hann var einnig valinn til að syngja aðalhlutverkið í 30 ára afmælisuppfærslu Phantom of the Opera í París 2016-2017 og árin 2017-2018 hefur Garðar ferðast um gervöll Bandaríkin í hlutverki Phantom í Love Never Dies. Garðar Thór hefur hefur sungið í fjórum uppfærslum Íslensku óperunnar í Hörpu, Tamino í Töfraflautunni, Rodolfo í La Bohème, Don José í Carmen og Horace Adams í Peter Grimes.

Scroll to Top

Hér á síðunni er að finna flest það sem þú þarft að vita um Söngskólann, en ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að hafa samband við okkur. Skrifstofan er opin frá 9 – 16 alla virka daga.

HAFA SAMBAND

SAMFÉLAGSMIÐLAR

STAÐSETNING