Kristín Ragnhildur Sigurðardóttir lauk áttunda stigs prófi frá Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Ragnheiðar Guðmundsdóttur 1993, og nam óperusöng á Ítalíu hjá Rínu Malatrasi. Síðar lauk hún söngkennaraprófi frá Söngskólanum árið 2001 í Reykjavík og naut þá tilsagnar Þuríðar Pálsdóttur. Hún hefur sungið opinberlega á Ítalíu, Færeyjum, Ungverjalandi, Englandi, Tékklandi, Austurríki, Kanada, Þýskalandi, og hér á Íslandi. Meðal hlutverka sem Kristín hefur sungið eru hlutverk Bertu í Rakarinn frá Sevilla, Greifynjan í Brúðkaupi Fígarós, Fiordiligi í Cosi fan tutte og Donnu Önnu í Don Giovanni. Hún hefur sungið sem einsöngvari í mörgum messum og óratoríum með kórum, hljómsveitum og kammerhópum. Kristín starfar sem einsöngvari og söngkennari. Kenndi m.a. söng við Söngskóla Sigurðar Demetz í 17 ár, við Tónlistarskólann á Egilsstöðum, á Seyðisfirði í eitt ár, auk þess sem að hafa stjórnað nokkrum kórum. Í dag kennir Kristín söng við Söngskólann í Reykjavík.