Signý stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og Söngskólann í Reykjavík og framhaldsnám í söng við Universität für Musik und darstellende Kunst í Vín þar sem hún lagði jöfnum höndum stund á óperu-, ljóða- og kirkjutónlist og lauk þaðan Diplomprófi vorið 1988. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum óperuuppfærslum Íslensku Óperunnar og Þjóðleikhússins. Hún hefur frumflutt íslenska óperutónlist, m.a. Tunglskinseyjuna eftir Atla Heimi Sveinsson í Peking 1997. Signý hefur sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kammersveit Reykjavíkur og haldið fjölda einsöngstónleika ásamt því að flytja samtímatónlist og þar á meðal tónverk sem hafa sérstaklega verið samin fyrir hana. Signý hefur verið gestur á fjölmörgum tónlistarhátíðum bæði hérlendis og erlendis.