Sigríður Ásta lauk BA gráðu í leiklist frá Copenhagen International School of Performing Arts vorið 2020 en áður hafði hún stundað söngnám við Söngskólann í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Sigríður hefur einnig sótt námskeið og einkatíma til lengri tíma hjá prof. Andrei Orlowits, prof. Helene Karusso og Janet Haney. Sigríður er sjálfstætt starfandi leikari og söngvari. Hún er annar stofnenda Sviðslistahópsins Flækju sem setur á svið ný samsköpunarverk bæði fyrir börn og fullorðna sem takast á við málefni líðandi stundar og endurspegla samtímann. Má þar nefna sýningarnar „VILLT“, „Ef ég væri tígrisdýr“ og „ÞAÐ & HVAГ. Ásamt því að kenna við Söngskólann í Reykjavík starfar Sigríður sem leikstjóri Söngleikjadeildar Tónlistarskóla Borgarfjarðar en hún er einnig söng- og píanókennari við skólann. Sigríður er leiklistarkennari hjá Leynileikhúsinu.