Söngkennari

Valgerður Guðnadóttir

Valgerður Guðnadóttir útskrifaðist frá The Guildhall School of Music and Drama í London árið 2000 þar sem hún nam hjá Lauru Sarti. Áður hafði hún lokið 8. stigi í söng með láði frá Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Kolbrúnar Sæmundsdóttur. Hún verið þátttakandi á námskeiðum m.a. hjá Graham Johnson, Elly Ameling, André Orlowitz og Robin Stapleton.

Valgerður hóf feril sinn sem María Magdalena í Jesus Christ Superstar í Verzlunarskólanum. Í kjölfarið fór hún með hlutverk Dala Völu í sjónvarpsleikritinu Þið munið hann Jörund í leikstjórn Óskars Jónassonar og Maríu í West Side Story í Þjóðleikhúsinu 18 ára gömul. Síðan þá hefur hún leikið og sungið burðarhlutverk hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Leikfélagi Akureyrar, Íslensku Óperunni og víðar.

Valgerður lék hlutverk Mömmu klikk í samnefndu leikriti eftir bók Gunnars Helgasonar og hlaut fyrir það tilnefningu til Grímunnar. Hún lék hlutverk Maríu í Söngvaseið í Borgarleikhúsinu en fyrir það hlutverk hlaut hún Grímuna sem Söngvari ársins árið 2009. Á meðal annarra hlutverka eru Gabriella í Sem á himni, Melina Cappuccio í Framúrskarandi vinkonu, Christine Dae í The Phantom of the Opera, Fantine í Vesalingunum, Linda í Gauragangi, Janet í Rocky Horror, Papagena í Töfraflautunni, Mercedes í Carmen, Barbarina í Brúðkaupi Fígarós og Berta í Rakaranum frá Sevilla. Hún hefur leikið og sungið í fjölda barnaleikrita eins og Leitinni að jólunum, Benedikt Búálfi, Ávaxtakörfunni og Hafinu Bláa og tekið þátt í frumflutningi á verkum eins og barnasöngleiknum Björt í Sumarhúsi eftir Þórarinn Eldjárn og Elínu Gunnlaugsdóttur. Hún lék jafnframt einleik upp úr verkinu vítt og breitt um landið á vegum List fyrir alla. Valgerður hefur þrisvar verið tilnefnd til Grímunnar sem Söngvari ársins og tvisvar til Íslensku tónlistarverðlaunanna í flokki Sígildrar- og samtímatónlistar.

Valgerður hefur komið víða fram sem einsöngvari hér heima og erlendis og haldið fjölda tónleika. Hún söng á opnunartónleikum Hörpu og með Sinfóníuhljómsveit Íslands t.d. á Klassíkinni okkar, Vínartónleikum, Disney tónleikum, James Bond veislu og á Jólatónleikum hljómsveitarinnar. Valgerður söng hlutverk Völvunnar í Völuspá eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson fyrir sópran, kór og hljómsveit með Sinfonia Nord í Hofi og í Færeyjum 2016 og 2018. Hún hefur léð Disney persónum eins og Pocahontas og Litlu Hafmeyjunni rödd sína og talsett ótal fleiri teiknimyndir. Valgerður var Fjallkonan í Reykjavík árið 2014 og hlaut starfslaun listamanna árið 2017 í 12 mánuði.

Scroll to Top

Hér á síðunni er að finna flest það sem þú þarft að vita um Söngskólann, en ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að hafa samband við okkur. Skrifstofan er opin frá 9 – 16 alla virka daga.

HAFA SAMBAND

SAMFÉLAGSMIÐLAR

STAÐSETNING