Valgerður Guðnadóttir útskrifaðist frá The Guildhall School of Music and Drama í London árið 2000 þar sem hún nam hjá Lauru Sarti. Áður hafði hún lokið 8. stigi í söng með láði frá Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Kolbrúnar Sæmundsdóttur. Hún verið þátttakandi á námskeiðum m.a. hjá Graham Johnson, Elly Ameling, André Orlowitz og Robin Stapleton.
Valgerður hóf feril sinn sem María Magdalena í Jesus Christ Superstar í Verzlunarskólanum. Í kjölfarið fór hún með hlutverk Dala Völu í sjónvarpsleikritinu Þið munið hann Jörund í leikstjórn Óskars Jónassonar og Maríu í West Side Story í Þjóðleikhúsinu 18 ára gömul. Síðan þá hefur hún leikið og sungið burðarhlutverk hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Leikfélagi Akureyrar, Íslensku Óperunni og víðar.
Valgerður lék hlutverk Mömmu klikk í samnefndu leikriti eftir bók Gunnars Helgasonar og hlaut fyrir það tilnefningu til Grímunnar. Hún lék hlutverk Maríu í Söngvaseið í Borgarleikhúsinu en fyrir það hlutverk hlaut hún Grímuna sem Söngvari ársins árið 2009. Á meðal annarra hlutverka eru Gabriella í Sem á himni, Melina Cappuccio í Framúrskarandi vinkonu, Christine Dae í The Phantom of the Opera, Fantine í Vesalingunum, Linda í Gauragangi, Janet í Rocky Horror, Papagena í Töfraflautunni, Mercedes í Carmen, Barbarina í Brúðkaupi Fígarós og Berta í Rakaranum frá Sevilla. Hún hefur leikið og sungið í fjölda barnaleikrita eins og Leitinni að jólunum, Benedikt Búálfi, Ávaxtakörfunni og Hafinu Bláa og tekið þátt í frumflutningi á verkum eins og barnasöngleiknum Björt í Sumarhúsi eftir Þórarinn Eldjárn og Elínu Gunnlaugsdóttur. Hún lék jafnframt einleik upp úr verkinu vítt og breitt um landið á vegum List fyrir alla. Valgerður hefur þrisvar verið tilnefnd til Grímunnar sem Söngvari ársins og tvisvar til Íslensku tónlistarverðlaunanna í flokki Sígildrar- og samtímatónlistar.
Valgerður hefur komið víða fram sem einsöngvari hér heima og erlendis og haldið fjölda tónleika. Hún söng á opnunartónleikum Hörpu og með Sinfóníuhljómsveit Íslands t.d. á Klassíkinni okkar, Vínartónleikum, Disney tónleikum, James Bond veislu og á Jólatónleikum hljómsveitarinnar. Valgerður söng hlutverk Völvunnar í Völuspá eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson fyrir sópran, kór og hljómsveit með Sinfonia Nord í Hofi og í Færeyjum 2016 og 2018. Hún hefur léð Disney persónum eins og Pocahontas og Litlu Hafmeyjunni rödd sína og talsett ótal fleiri teiknimyndir. Valgerður var Fjallkonan í Reykjavík árið 2014 og hlaut starfslaun listamanna árið 2017 í 12 mánuði.