Þetta er búið að vera gríðarlega viðburðaríkur söngvetur hjá Þórhildi Steinunni Kristinsdóttur, nemenda Hörpu Harðardóttur og Hólmfríðar Sigurðardóttur.
Þórhildur hefur lagt mikinn metnað í námið við Söngskólann í vetur; fór með hlutverk Prins Orlofsky í uppfærslu Nemendaóperunnar á Leðurblökunni; var gestasöngvari hjá Ungdeild Söngskólans þar sem hún fór með hlutverk Vondu stjúpunnar í Skilaboðaskjóðunni og er nýbúin að halda Framhaldsprófstónleikana sína við skólann. Hún er lykilkona í félagslífi Söngskólans og sitjandi formaður Nemendafélagsins. Samhliða þessu öllu saman tók hún þátt í söngkeppni Vox Domini og var send fyrir hönd skólans í Nótuna. Öll þessi verkefni hefur Þórhildur leyst af mikilli fagmennsku og einstakri prýði.
Um helgina fékk þessi frábæra söngkona styrk úr minningarsjóði Vilhjálms Vilhjálmssonar, sem samsvarar skólagjöldum fyrir söngnámið á komandi skólaári.
Við samgleðjumst henni og kennurum hennar innilega. Hún er vel að styrknum komin!
Gangi þér allt í haginn í komandi söngverkefnum kæra Þórhildur.