Nú er Ungdeild Söngskólans búin að sýna Skilaboðaskjóðuna tvívegis, fyrir troðfullum sal í Iðnó.
Harpa Harðadóttir, Sibylle Köll, Hólmfríður Sigurðardóttir og Sigurður Helgi Oddsson sáu um uppsetninguna; kenndum þeim tónlistina, raddþjálfuðu, skipuðu í hlutverk og sáu til þess að allt færi á sem besta veg. Þau unnu mikið og gott starf.
Jóhann G. Jóhannsson samdi ævintýrasöngleikinn Skilaboðaskjóðuna við texta Þorvaldar Þorsteinssonar, árið 1994. Söngleikurinn naut strax mikla vinsælda enda skemmtileg saga, hnyttin texti og dásamleg tónlist. Á æfingarferlinu kom Jóhann sjálfur reglulega til að leiðbeina hópnum, en það er ómetanlegt að fá leiðsögn beint frá tónskáldinu.
Sibylle Köll, söngkennari við Söngskólann og leikstjóri, sviðsetti sýninguna af einstakri snilld! Sýningin var því bæði skemmtileg að sjá og heyra, því hópurinn fór á kostum í leik og söng.
Þrátt fyrir miklar tarnir í kringum uppsetningu Skilaboðaskjóðunnar er hvergi slakað á í náminu. Nemendur hafa stundað tónfræðina og söngtímana vel og í dag munu nemandur syngja einsöng á innanhúss tónleikum í Snorrabúð, kl. 16:30.
Það er nóg að gera! Við erum stollt af krökkunum okkar og starfsfólki skólans.