Þóra Kristín Gunnarsdóttir fluttist til Íslands árið 2021 eftir tíu ára búsetu í Sviss. Síðan þá hefur hún spilað á mörgum helstu tónleikaröðum og hátíðum landsins, m.a. í tónleikaröðunum Tíbrá, Velkomin heim í Hörpu, Klassík í Salnum, á Sígildum sunnudögum og á tónlistarhátíðunum Reykholtshátíð, Seiglu og Klassík á eyrinni. Hún hefur átt í reglulegu samstarfi við söngvara Kammeróperunnar auk þess vera meðlimur píanókvartettsins Neglu. Þess utan hefur hún leikið með mörgum öðrum fremstu söngvurum og hljóðfæraleikurum landsins. Í Sviss kom hún einnig víða við, m.a. á tónlistarhátíðinni Chesa Planta Musiktage og á tónleikum á vegum Liedrezital Zürich. Árið 2018 frumflutti hún nýjan ljóðaflokk Valentin Villards ásamt Béa Droz mezzósópran á tónleikaferð um Sviss. Hún hefur verið meðleikari á masterklassnámskeiðum fyrir söngvara og strengjaleikara hérlendis og erlendis og starfar sem meðleikari við Menntaskóla í tónlist og Söngskólann í Reykjavík.
Þóra hóf tónlistarnám sitt á Akureyri hjá Dýrleifu Bjarnadóttur og lærði síðar hjá Peter Máté við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hún lauk meistaragráðu í píanókennslu og píanóleik með kammertónlist sem aukagrein frá tónlistarháskólanum í Luzern árið 2017. Helstu kennarar hennar þar voru Yvonne Lang og Edward Rushton. Árið 2020 lauk hún annarri meistaragráðu í kammertónlist og meðleik frá listaháskólanum í Zürich, þar sem aðalkennari hennar var píanóleikarinn Friedemann Rieger. Hún sótti þar einnig reglulega tíma í ljóðameðleik hjá m.a. Christoph Berner og kammertónlist hjá Eckart Heiligers og fleirum. Hún hefur sótt masterklassnámskeið hjá m.a. Thomas Hampson, Simon Lepper, Joseph Breinl og Ewa Kupiec.