Reykjavíkurborg hefur tekið ákvörðun um að skera niður framlög til tónlistarskóla í Reykjavík um rúm 7%.
Við hvetjum ykkur til þess að standa vörð um tónlistarnám í Reykjavík og mótmæla þessari ákvörðun.
Foreldrafélag Tónmenntaskóla Reykjavíkur hefur stofnað undirskriftarlista á island.is þar sem ákvörðun Reykjavíkurborgar er mótmælt. Þessi skerðing mun hafa áhrif á tækifæri fjölda barna og ungmenna til að stunda tónlistarnám, vegna skertrar þjónustu og/eða hækkaðra skólagjalda.
Yfirlýsingin sem foreldrafélagið lætur fylgja með listanum gildir fyrir allt tónlistarnám sem nýtur framlaga frá Reykjavíkurborg, til dæmis við Söngskólann í Reykjavík, og er því ekki bundin bara við Tónmenntaskóla Reykjavíkur.
Við hvetjum ykkur til að setja nafn ykkar á listann og deila listanum og senda þannig sterk skilaboð til Reykjavíkurborgar um að endurskoða þessa ákvörðun.
Hlekkur á listann: https://island.is/undirskriftalistar/8cb6f021-7edc-4f3d-8a17-7dd29c5fce46
Yfirlýsingin í heild sinni:
Niðurskurði á framlagi Reykjavíkurborgar til tónlistarmenntunar mótmælt
Við undirrituð, aðstandendur barna og ungmenna í tónlistarskólum Reykjavíkur, mótmælum harðlega niðurskurði borgaryfirvalda á framlögum til tónlistarmenntunar sem nýlega tilkynntu um rúmlega 7% lækkun á mánaðarlegu nemendastundaframlagi til tónlistarskóla í Reykjavík. Við lýsum yfir miklum áhyggjum af þessum niðurskurði, og teljum hann gera tónlistarnám óaðgengilegt fyrir fjölda barna og auka ójöfnuð meðal barna og ungmenna. Í hruninu 2008 var framlag til tónlistarskóla skorið niður um 20% og því lofað að þau framlög myndu koma til baka. Það hefur ekki gerst og nú á að skerða enn frekar. Þessi þróun er uggvænleg, mun einungis leiða til skertar þjónustu og/eða hærri skólagjalda, og gengur þvert á þau gildi sem borgin segist vilja standa fyrir: menntun, listir og jöfn tækifæri fyrir börn og ungmenni. Við skorum á fulltrúa okkar í borgarstjórn Reykjavíkur, tónlistarborgar UNESCO, að endurskoða þessa ákvörðun og standa vörð um tónlistarmenntun barna og ungmenna til framtíðar.