Grammy-verðlaunahafinn Dísella Lárusdóttir hefur unnið hvern listrænan sigurinn á fætur öðrum sem söngkona og hefur unnið að mestu við Metrópólitan-óperuna í New York á sínum starfsferli. Söngur hennar hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda, til að mynda í stórblaðinu New York times sem hrósaði henni fyrir fádæma nákvæmni í bland við magnaða túlkun.
Dísella þreytti frumraun sína hjá Metropolitan Óperunni í mars 2013 en síðan þá hefur hún sungið í hinum ýmsu uppsetningum og hafa fjórar þeirra, Francesca da Rimini eftir Riccardo Zandonai, Rusalka eftir Antonin Dvorák, Marnie eftir Nico Muhly og Akhnaten e. Philip Glass ratað í beina útsendingu í kvikmyndahús um allan heim.
Dísella hefur einnig látið til sín taka á óperusviðinu í Evrópu á síðustu árum en frumraun hennar á meginlandinu var í óperu Albans Berg, Lulu, í Róm 2017. Dísella hefur víða komið fram sem einsöngvari á tónleikasviði, meðal annars í Carnegie Hall í New York, Disney Hall í Los Angeles ásamt fjölda annarra tónlistarhátíða í Bandaríkjunum.
Dísella hóf störf sem kennari hjá Listaháskóla Íslands árið 2020, þar sem hún starfar enn, og mun nú hefja einnig störf hjá Söngskólanum í Reykjavík í haust.