Um þessar mundir syngja nemendur á framhaldsstigi í Söngskólanum í Reykjavík einsöng og tvísöng í messum í níu kirkjum á höfuðborgarsvæðinu. Á myndinni sést Laufey Ósk Jóns syngja í Hallgrímskirkju. Undanfarin 25 ár hefur Söngskólinn í Reykjavík átt í góðu samstarfi við organista og í sameiningu hafa þeir og skólinn gefið framtíðar-söngvurum tækifæri til að koma fram og syngja í kirkjunum. Þetta samstarf hefur verið skólanum mikils virði, nemendur kynnast þessum vetfangi tónlistar sem spilar stórt hlutverk í tónlistarlífi landsins um leið og þeir fá tækifæri til að kynna sig.
Messusöngurinn er gefandi og þroskandi reynsla fyrir söngnemendur og leið til þess að gefa af sér til nærsamfélagsins. Það er Harpa Harðardóttir söngkennari við skólann sem á veg og vanda af skipulagningu messusöngsins. Söngskólinn í Reykjavík þakkar eftirfarandi kirkjum og organistum þeirra fyrir gjöfult samstarf:
Langholtskirkja
Kópavogskirkja
Guðríðarkirkja
Fella- og Hólakirkja
Hjalla- og Digraneskirkja
Áskirkja
Hallgrímskirkja
Seltjarnarneskirkja
Vídalínskirkja