Skólastjóri

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran hefur komið fram sem einsöngvari á tónleikum vítt og breitt um Evrópu, í Suður-Ameríku, Bandaríkjunum og Afríku í tónleikasölum svo sem Henry le Boeuf Hall í Bozar í Brussel, Auditorio Nacional de Música og Teatro Real í Madrid, Glinka sal Fílharmóníunnar og Belozelsky-Belozersky höllinni í St. Pétursborg, Coliseo í Buenos Aires, Wigmore Hall og Royal Festival Hall í London. Hún hefur sungið m. a. með Sinfóníuhljómsveitum
Íslands, Madrídar, Barselóna, Katalóníu, Sjónvarps- og Útvarpshljómsveit Spánar, St. Petersburg State Symphony Orchestra og Philharmonia Orchestra í London. Guðrún hefur sungið í óperum á Spáni, Bretlandi og Íslandi. Við Íslensku óperuna hefur hún sungið Rosinu í Rakaranum frá Sevilla, Ingibjörgu í Ragnheiði, Tónskáldið í Ariadne auf Naxos og Prins Orlowsky í Leðurblökunni. Hún hefur frumflutt fjölda tónverka eftir íslensk og erlend tónskáld. Þar á meðal er titilhlutverkið í óperunni Lilith, luna negra eftir David del Puerto, sem er handhafi Þjóðarverðlauna Spánar í tónlist, og hlutverk Ingibjargar í Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson. Guðrún kemur reglulega fram og hljóðritar tónlist með eiginmanni sínum, gítarleikaranum Francisco Javier Jáuregui. Hún hefur sungið á fjölmörgum tónleikum víðs vegar um heim með Sonor Ensemble, sem saman stendur af
hljóðfæraleikurum úr Sinfóníuhljómsveit Spánar undir stjórn Luis Aguirre. Guðrún stundaði söngnám hjá Rut Magnússon í Tónlistarskólanum í Reykjavík og hjá Lauru Sarti í Guildhall School of Music and Drama í London, en þar lauk hún meistaragráðu í söng og tveggja ára óperudeild skólans. Hún stundaði einnig söngnám í einkatímum um árabil hjá Aliciu Nafé og sótti master class námskeið s.s. við Teatro Real þar sem kennarar voru Teresa Berganza og Raina Kabaivanska. Guðrún hefur hlotið ýmis verðlaun í alþjóðlegum söngkeppnum, svo sem Kathleen Ferrier ljóðasöngsverðlaunin í Wigmore Hall í London, The Miriam Licette Scholarship í Konunglega óperuhúsinu Covent Garden, þriðju verðlaun í Concorso Vocale Internazionale di Musica Sacra í Róm, ljóðasöngsverðlaunin í hinni Alþjóðlegu söngkeppni Zamoraborgar á Spáni og verðlaun sem Besti flytjandi tónlistar eftir Rodrigo í Joaquín Rodrigo keppninni í Madríd. Hún hefur margsinnis hlotið Starfslaun listamanna. Söngur Guðrúnar hefur verið hljóðritaður á vegum RÚV, Sjónvarpsins, BBC, Spænska ríkisútvarpsins, Spænska sjónvarpsins og var hún einn af söngvurunum sem Sjónvarpið fjallaði um í þáttaröðinni Átta raddir. Hún hefur sungið inn á kvikmyndir, sjónvarpsþætti og inn á sautján geisladiska, m.a. á vegum 12 tóna, Smekkleysu, Naxos, ABU Records, EMEC Discos og Orpheus Classical. Guðrún flutti aftur til Íslands árið 2020 eftir 20 ára dvöl erlendis við nám og störf. Hún hefur kennt söng við Saint Louis University Madrid Campus, Tónlistarskóla Kópavogs og Söngskóla Sigurðar Demetz og á master class námskeiðum t.d. við Listaháskóla Íslands og Söngskólann í Reykjavík. Þar að auki hefur hún raddþjálfað ýmsa kóra í Madríd og Reykjavík. Guðrún er núverandi formaður Félags íslenskra söngkennara. Hún var listrænn stjórnandi Kammertónleika á Kirkjubæjarklaustri og tónleikaraðarinnar Syngjandi í Salnum. Guðrún er, ásamt Francisco Javier Jáuregui, stofnandi og listrænn stjórnandi Sönghátíðar í Hafnarborg sem hefur verið haldin árlega síðan árið 2017 og hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin sem Tónlistarhátíð ársins. Guðrún var ráðin skólastjóri Söngskólans í Reykjavík haustið 2024.

www.gudrunolafsdottir.com
Guðrún á Spotify
Guðrún á Facebook
Guðrún á YouTube

Scroll to Top

Hér á síðunni er að finna flest það sem þú þarft að vita um Söngskólann, en ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að hafa samband við okkur. Skrifstofan er opin frá 9 – 16 alla virka daga.

HAFA SAMBAND

SAMFÉLAGSMIÐLAR

STAÐSETNING