Söngleikjadeild

Þórunn Lárusdóttir

Þórunn Lárusdóttir á að baki farsælan feril sem leikkona en hún hefur starfað hjá öllum helstu leikhúsum landsins. Hún var fastráðin við Þjóðleikhúsið í tólf ár, lék þar ótal hlutverk af öllum stærðum, jafnt skapgerðarhlutverk sem og í gamanleikritum og söngleikjum. Meðal annars Línu Lamont í “Syngjandi í rigningunni,” Annette í “Vígaguðinum” og Aðalheiði í „Eldhús eftir máli.“
Hún hefur leikið ótal hlutverk hjá sjálfstæðum leikhópum, nýverið annað aðalhlutverka í verkinu Samdrættir eftir Mike Bartlett, í Tjarnarbíói, sem hlaut einróma lof gagnrýnenda og áhorfenda.
Hún hefur mikið unnið með Gaflaraleikhúsinu, í farandsýningum með Leikhópnum Lottu og hjá Leikfélagi Akureyrar. Nokkur eftirminnileg hlutverk eru einleikurinn “Cellophane” eftir Björk Jakobsdóttur sem var sýnd á leiklistarhátíðinni í Edinborg, Sally Bowles í Kabarett í íslensku óperunni en hún var tilnefnd til Grímuverðlaunanna fyrir frammistöðu sína þar, Auður í Litlu hryllingsbúðinni í Borgarleikhúsinu og einleikurinn The Saga of Guðríður, sem fór m.a. á leikferðalag um Bandaríkin.
Hún er einnig leikstjóri og hefur stýrt sýningum í atvinnuleikhúsi, hjá leikfélögum og í framhaldskólum, nú síðast söngleiknum „Gæjar og píur“ í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ.
Þórunn starfar einnig sem söngkona. Hún er ein af Dívunum fjórum (ásamt Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur, Margréti Eir og Sigríði Eyrúnu Friðriksdóttur) sem hafa sungið söngleikjatónlist í Salnum undanfarið. Hún hefur sungið inn á fjölda geisladiska og komið fram á ótal tónleikum víða um land, m.a. með systrum sínum Ingibjörgu og Dísellu.
Geislaplöturnar eru meðal annarra: “Þórunn Lár. og félagar”, “Álfar og fjöll” (Gullplata) ásamt Friðriki Karlssyni og “Jólaboð” með þremur systrum.
Þórunn er einnig menntuð í kvikmyndagerð og hefur starfað við skriftir, framleiðslu og leikstjórn auk þess sem hún hefur leikið heilmörg hlutverk í sjónvarpi og kvikmyndum á ferlinum sem spannar yfir tuttugu og fimm ár.
Scroll to Top

Hér á síðunni er að finna flest það sem þú þarft að vita um Söngskólann, en ef þú hefur einhverjar spurningar ekki hika við að hafa samband við okkur. Skrifstofan er opin frá 9 – 16 alla virka daga.

HAFA SAMBAND

SAMFÉLAGSMIÐLAR

STAÐSETNING