Minningarsjóður Guðfreðs Hjörvars Jóhannessonar, í varðveislu Söngskólans í Reykjavík, veitir nú styrki í fimmta sinn og fer afhendingin fram þriðjudaginn 18. febrúar 2025 kl. 18:00 í sal Söngskólans í Reykjavík við Laufásveg 49-51. Myndin er úr Morgunblaðinu frá árinu 2017 þegar Guðfreður hélt upp á áttræðisafmæli sitt í Söngskólanum.
Nemendur sem hljóta styrki úr Minningarsjóði Guðfreðs Hjörvars Jóhannessonar koma fram á stuttum tónleikum af þessu tilefni. Hrönn Þráinsdóttir leikur með á píanó. Stjórn sjóðsins mun síðan veita styrkina í lok tónleikanna.
Söngskólinn í Reykjavík hefur í vörslu sinni sjóð sem er til minningar um Guðfreð Hjörvar Jóhannesson, en hann var starfsmaður og velunnari Söngskólans í Reykjavík um árabil.
Sjóðurinn var stofnaður í febrúar 2018 og er stofnandi sjóðsins dánarbú Guðfreðs Hjörvars Jóhannessonar.
Markmið sjóðsins er að styrkja unga, efnilega nemendur við Söngskólann í Reykjavík og skulu þeir valdir af stjórn sjóðsins.
Tónleikarnir eru opnir öllum áhugasömum.
Aðgangur er ókeypis.
Sjá frétt í Morgunblaðinu frá 2017: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/09/09/eg_eignadist_thar_goda_vini/