Söngskólinn í Reykjavík býður Bryndísi Guðjónsdóttur velkomna en hún er nýr kennari við Óperudeild skólans. Bryndís syngur einmitt hlutverk Greifynjunnar (Contessa) í Brúðkaupi Figarós í uppfærslu Kammeróperunnar í Borgarleikhúsinu um þessar mundir.
Bryndís er handhafi nokkurra verðlauna. Árið 2022 vann hún fyrstu verðlaun og sérstök verðlaun í XVIII Certamen Nuevas Voces keppninni í Sevilla. 2021 hlaut hún fyrstu verðlaun í Riccardo Zandonai keppninni í Garda á Ítalíu. Hún var sigurvegari í keppni Ungra einleikara á Íslandi árið 2018 með Sinfóníuhljómsveit Íslands og þá sigraði hún í Dušek keppninni í Prag árið 2018.
Bryndís hefur komið fram á fjölum margra óperuhúsa og sungið með mörgum sinfóníuhljómsveitum. Þar má nefna Aalto Theater Essen, Semperoper Dresden, Theater Kiel, Theater Kassel, Liederhalle Stuttgart, Isarphilharmonie í Hamborg og Gasteig í München, Teatro de la Maestranza í Sevilla, Teatro Verdi í Martina Franca sem og í Salzburg, Prag, Róm, Vilnius, og Madrid. Meðal óperuhlutverka sem Bryndís hefur sungið opinberlega eru Ännchen í Freischütz eftir Weber, Fyrsta dama og Næturdrottningin í Töfraflautunni eftir Mozart, Erste Dienerin í Frau ohne Schatten eftir Richard Strauss, Kúnígúnd í Candide eftir Bernstein, Greifafrú í Gli Uccellatori eftir Florian Gassmann, Belinda í Dido og Aeneas eftir Purcell og Giulietta í Ævintýrum Hoffmanns eftir Jacques Offenbach. Þá er hún reglulegur gestur Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Prag undir stjórn Heikos Mathias Förster.