Þriðjudaginn 21. janúar kenndi Fanný Lisa Hevesi nemendum í Söngleikjadeild Söngskólans í Reykjavík á master class námskeiði í sal skólans. Fanný Lísa Hevesi er nýútskrifuð úr Performance Preparation Academy (PPA) með BA-gráðu í söngleik en skólinn er staðsettur í Guildford og er einn af fremstu skólum Bretlands í slíku námi og hefur verið starfandi í um tuttugu ár. Í skólanum lék Fanný marga mismunandi karaktera, líkt og Lenoru í Cry Baby, Jesus í Jesus Christ Superstar og Dominu í A Funny Thing Happened on the Way to the Forum. Áður en hún var í PPA var hún nemandi í Full Time Foundation Course í ArtsEd, einum virtasta listaháskóla Englands, þaðan sem hún útskrifaðist árið 2021 með láði.
Á Íslandi lærði Fanný söng í Söngskóla Sigurðar Demetz og lék hlutverk eins og Fjólu í 9 to 5 og Heiði Chandler í Heathers. Hún útskrifaðist með framhaldspróf í klassískum söng með Sigrúnu Hjálmtýsdóttur sem kennara en fyrir það lærði hún söngleikjasöng hjá Valgerði Guðnadóttur og Þór Breiðfjörð. Aðrar uppfærslur sem Fanný hefur tekið þátt í eru Kardemommubærinn í Þjóðleikhúsinu (sýningar féllu þó niður vegna Covid), Kabarett og Krúnk krúnk og dirrindí á vegum Leikfélags Akureyrar, Phantom of the Opera á vegum Sinfonia Nord í Hörpu, Töfraflautan fyrir börn og Ævintýraóperan Baldursbrá, auk þess sem hún var meðlimur í barnakór Íslensku óperunnar í uppsetningu hennar á Carmen og La bohéme í Hörpu.